144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[11:40]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram eru fjáraukalög fyrir eitthvað sem er ófyrirséð, óvænt eða jafnvel vegna kjarasamninga. Ég tek eftir því að þetta fjáraukalagafrumvarp er miklu minna í sniðum en í fyrra. Það er næstum því eins og það sé ekki sama fólkið sem semur það. Mér finnst það mjög til bóta.

Það eru þó eins og komið hefur fram enn þá liðir í frumvarpinu sem eru ekki óvæntir eða ófyrirséðir. Ég get tekið dæmi um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða sem hefði bara átt að fá meira fjármagn í fjárlagafrumvarpi fyrir árið í ár. Sýnir það í raun aga í ríkisfjármálum ef við ætlum að samþykkja svona liði sem eiga ekki heima í fjáraukanum? (Gripið fram í.) Verðum við ekki að vera samkvæm sjálfum okkur hvað þetta varðar, þótt það sé kannski búið að eyða þessum peningum? Þetta er verklag sem ég og hv. formaður fjárlaganefndar erum á móti, ég veit það. (Forseti hringir.) Verðum við ekki að sýna það í verki?