144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[11:41]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Við erum svo sannarlega sammála um að sýna þarf enn meiri aga í ríkisrekstri.

Varðandi hina og þessa liði fór ég yfir það að sumt í frumvarpinu og breytingartillögunum er alls ekki til fyrirmyndar og þarf ekkert að tvítaka það. Það er nú þó svo, virðulegi forseti, að þetta er betra en í fyrra, en það tekur ákveðinn tíma að snúa kerfinu við og breyta hugsunarhætti hjá þeim aðilum sem þiggja fé frá ríkinu; ríkisstofnunum, ráðuneytum og slíkum. Ég nefni til dæmis þá hækkun sem ég fór yfir áðan til sjóðs vegna táknmálstúlkunar fyrir heyrnarlausa. Þá voru kosningar hérna 27. apríl 2013 og þann 10. maí skrifar þáverandi menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, undir það að hækka þennan lið um 45%, algjörlega ófjármagnað, engar ráðstafanir um að gera eitthvað til að koma með tekjur á móti. Þessu erum við (Forseti hringir.) einfaldlega að vinna á og vinna upp. Þess vegna þarf kannski að grípa til fjáraukalaganna með þessum hætti.