144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[11:43]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar.

Það er gleðilegt að við séum sammála um það að fjáraukalagafrumvarpið og fjáraukalög eigi að vera sem umfangsminnst. Ég var kannski að vísa í það að meiri hlutinn hefur orðið fyrir mikilli gagnrýni frá þeim stjórnmálaflokkum sem mynda minni hluta fjárlaganefndar og það er hægt að leggja til og koma með breytingartillögur til minnkunar eða útgjaldaminnkunar. Það var það sem ég var að vísa í. Svo hefur verið rætt um að fjármagn vanti í heilbrigðiskerfið sem dæmi, þannig að það er líka hægt að færa til innan frumvarpsins.

Þetta er gleðilegt að afstaðan skuli vera þessi og ég tek undir að þingmenn sýni vilja sinn í verki í atkvæðagreiðslunni. Eitt er ég eiginlega nánast viss um, ég hugsa að allir þingmenn geti verið á þeirri tillögu okkar í meiri hlutanum að auka peningagreiðslu í (Forseti hringir.) táknmálstúlkunarsjóðinn.