144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[11:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og fyrir endalausa baráttu hennar fyrir hagsmunum skattgreiðenda.

Getur verið að eitthvert fólk taki sér fjárveitingavald? Hún nefndi túlkaþjónustuna og að menn hefðu hækkað gjöldin mjög mikið, þá í trausti þess að Alþingi mundi greiða fyrir hana.

Síðan er spurningin með fjáraukalög, þau eiga að vera fyrir óvæntum útgjöldum. Gæti hún séð fyrir sér að það yrðu mörg fjáraukalög yfir árið, t.d. að þegar gerður er samningur við sérgreinalækna, sem eykur útgjöld ríkisins, séu ein fjáraukalög, önnur þegar eldgos verður, afleiðingar þess og kostnaður fyrir ríkissjóð o.s.frv.? Er hún ekki sammála mér í því að fjáraukalög eigi að vera síðustu lög sem Alþingi samþykkir fyrir jólaleyfi sem á núna að byrja reyndar 12. desember — þá er heilmikið af árinu eftir, það gæti orðið gos í Bárðarbungu — eða þá að fjáraukalög fyrir árið 2014 yrðu samþykkt (Forseti hringir.) á fyrsta fundi Alþingis 2015?