144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[12:26]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi varðandi samninginn við sérgreinalækna. Samningar höfðu verið lausir síðan 2011. Jú, það var gott að það náðist samkomulag við sérgreinalækna. Ég fagna því að á árinu 2014 hafi komugjald til sérgreinalækna sem sjúklingar greiða lækkað, en það var hins vegar ekki meiningin. Það var aldrei gert ráð fyrir því að samningnum, sem tók gildi 1. janúar 2014, ætti að fylgja viðbótarútgjöld. Ástæðan fyrir því að gjaldskráin var ekki hækkuð, eins og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur útskýrt hér í sal, var samningur við aðila vinnumarkaðarins um gjaldskrárhækkanir. Það stendur hins vegar skýrum stöfum í fjáraukalagafrumvarpinu að gert sé ráð fyrir því að á árinu 2015 verði samningurinn að fullu fjármagnaður með komugjöldum sjúklinga.

Ég hefði viljað og kosið að vegna þess að samningar náðust ættu þeir sem þurfa á þjónustu læknanna að halda að njóta þess, að þeir þyrftu ekki áfram að greiða nákvæmlega það verð sem sérgreinalæknar höfðu sett upp því það var fellt inn í samninginn. Þetta stendur skýrum stöfum í fjáraukalagafrumvarpinu. Ég get lesið það hér ef ég hef tíma til á eftir ef hv. þingmaður efast um þetta.

Útgreiddar barnabætur á árinu 2014 miðast við laun á árinu 2013. Viðmiðin sem sett eru í skattalögum og barnabætur eru reiknaðar út frá voru sett um mitt ár 2012. Auðvitað var það fyrir séð þegar stjórnarliðar greiddu atkvæði gegn breytingartillögum mínum hér í sumar. Það var algjörlega fyrir séð (Forseti hringir.) að laun höfðu hækkað og það þyrfti að breyta þessum viðmiðum, enda hafði launavísitala hækkað (Forseti hringir.) um 13% síðan þá.