144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[13:44]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér við 2. umr. frumvarp til fjáraukalaga og framsögumenn minni og meiri hluta hafa farið yfir ákveðna hluti sem ég tel ekki þörf á að fara yfir aftur.

Það er hins vegar ljóst að þær breytingar sem eiga sér stað í þessu fjáraukalagafrumvarpi eru í sjálfu sér mun minni en tíðkast hefur. Það stafar af því að kannski er verið að reyna að koma böndum yfir þau atriði sem koma inn í fjáraukann. Fjáraukinn gegnir auðvitað ákveðnu hlutverki, að bregðast við óvæntum og ófyrirséðum útgjöldum.

Stærsti einstaki liðurinn er 16 milljarða kr. fjárauki vegna niðurfærslna á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimila, sem bætist þá við 20 milljarða kr. sem gert er ráð fyrir að fari inn með fjárlagafrumvarpi fyrir 2015. Þetta er viðamikil aðgerð og skiptir gríðarlega marga miklu máli. Eins og ég hef sagt hér áður í ræðustóli hef ég heyrt í fjölmörgu fólki sem hefur fengið tilkynningu um að það fái niðurfærslu á skuldum vegna þess forsendubrests sem varð á ákveðnum tíma. Það er alveg á tæru að þetta léttir lífið hjá því fólki, það lítur bjartari augum til framtíðar og það er afskaplega ánægt með að horft skuli til heimilanna að þessu leyti.

Stærri liður er framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Lagt er til að fjárheimildin hækki um 442 millj. kr. og það er í samræmi við endurskoðaða áætlun um lögboðin framlög miðað við hlutföll af skatttekjum ríkisins og útsvarsstofni fyrir árið 2014. Þetta segir okkur líka, sem við vitum nú þegar, að skatttekjur ríkisins eru til muna hærri en gert var ráð fyrir. Það er mikið fagnaðarefni að sú staða skuli vera komin upp. Það segir okkur að atvinnuástand fer batnandi þannig að við erum afskaplega ánægð með að þetta framlag í jöfnunarsjóðinn skuli hækka.

Ekki er hægt að horfa fram hjá því að hér varð eldgos og það stendur enn yfir. Það hefur í för með sér mikil útgjöld fyrir ríkissjóð. Við eigum hins vegar góða að og höfum fengið stuðning utan frá frá öðrum löndum. Við erum líka svo afskaplega heppin að eiga frábæra vísindamenn sem vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera. Við eigum frábært starfslið í stjórnsýslunni sem hefur staðið vaktina frá því að eldgosið hófst. Það er vakt uppi á hálendinu og á almannavarnastöðvum um landið þar sem mest þörf er á og þörf er talin. Það verður að segjast eins og er að það fólk hefur staðið sig með eindæmum vel og við getum þakkað fyrir að búa við þá tækni í dag að hægt er að vara þá sem eru á hættusvæði við með einhverra klukkustunda fyrirvara ef til meiri háttar náttúruhamfara kæmi. Það á að koma í veg fyrir að við þurfum að verða fyrir mannfalli, og hver maður er okkur dýrmætur. Við erum bara 328 þúsund á þessu landi, þó að okkur finnist stundum að við séum milljónaþjóð þegar við erum að setja fram óskir okkar og vonir um það hvernig samfélagið geti starfað.

Það er líka ánægjulegt að geta farið yfir það hér að verið er að reyna að aðstoða landbúnaðarháskólana okkar, sem hafa verið að glíma við stórkostlegan vanda. Hér er ekki um háar upphæðir að ræða, það eru 5 millj. kr. til Háskólans á Hólum, sem hefur orðið fyrir því tvö ár í röð að tún hafa kalið hjá þeim með tilheyrandi jarðspjöllum og kostnaði fyrir skólann og fyrir nemendur líka. Þetta var svo sannarlega ófyrirséð og það er mikið gleðiefni að geta lagt eitthvað til þar.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hefur lengi glímt við fjárhagsvanda og sér ekki fyrir endann á því. Þarna er verið að koma til móts við skólann með 15 millj. kr. framlag sem er ekki er há upphæð miðað við það sem til þyrfti en gerir samt eitthvert gagn.

Ég verð síðan að lýsa yfir sérstakri ánægju með tvo liði, annars vegar framlag upp á 30 millj. kr. til Háskólans á Akureyri. Háskólinn á Akureyri skiptir gríðarlega miklu máli fyrir okkur í Norðausturkjördæmi sem háskólastofnun á því svæði og á Akureyri. En auðvitað er þetta skóli sem þjónar öllum landsmönnum og nemendur í Háskólanum á Akureyri koma alls staðar að af landinu. Skólinn stóð sig mjög myndarlega í samdrætti þegar hart var í ári og meðal annars voru skornar niður fjárveitingar til rannsókna í Háskólanum á Akureyri og verið er að bæta það núna um 30 millj. kr. og er það vel. Við eigum þar afskaplega frambærilega og mikilvæga starfsmenn og kennara og prófessora sem eru að vinna mjög góða hluti. Má til dæmis nefna norðurslóðaverkefnið, sem þar er innan borðs.

Síðan lýsi ég ánægju minni með að hins vegar eru settar 400 millj. kr. plús 35 millj. kr. í framhaldsskóla landsins. Þeir hafa árum saman verið undir skurðarhnífnum og það er svo sannarlega ekki vanþörf á að eitthvað verði rétt við þar. Breytingar eru fram undan og þess vegna skiptir svo miklu máli að tekin hefur verið ákvörðun um að minnstu skólarnir, sem hafa verið á gólfi og hafa glímt við rekstrarörðugleika að einhverju leyti, fái þarna stuðning til að vinna á sínum vanda og til að gera betur.

Ég vil líka koma inn á lið sem er sárgrætilegur, það er blóðugt að þurfa að horfa á allt það fjármagn sem þangað rennur á hverju ári, en það eru vaxtagjöld ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir að vaxtagjöld nemi á rekstrargrunni fyrir árið 2014 78.776 millj. kr., en á greiðslugrunni nemi þau 78.034 millj. kr. og lækki um 778 millj. kr. frá frumvarpinu sem er ánægjulegt. En þetta er eins og ég sagði liður sem við gætum svo sannarlega nýtt í eitthvað annað. En við stöndum frammi fyrir þessum raunveruleika og það er alveg ljóst að það tekur okkur einhvern tíma að komast út úr þessu. Og við erum þrautseig, Íslendingar.

Farið hefur verið yfir ýmis atriði áður en ég tók til máls og ég held að ég láti þetta duga núna.