144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:05]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég kem hér upp bara til að árétta að þegar við gagnrýnum þann lið sem snýr að hafnaruppbyggingu á Bíldudal erum við fyrst og fremst að benda á að ný verkefni eiga almennt ekki að vera inni á fjáraukalögum, þannig að því sé haldið til haga. Við verðum að gera þá kröfu að það sé einhver stefnumótun og plan í gangi sem tekur meira en nokkra mánuði þegar farið er í svona verkefni. Maður getur líka velt fyrir sér hvernig ástandið hefur verið víða, til dæmis á Djúpavogi, og víða þarf að bregðast við. Ég er viss um að við séum sammála um að það þyrfti að vera öflugur sjóður fyrir atvinnuuppbyggingarmál fyrir landsbyggðina.

Mér fannst líka gott að heyra það sem hv. þingmaður sagði um vinnubrögð sveitarfélaga og tek undir það, mörg hver alla vega eru til fyrirmyndar hvað það varðar. Við gerum okkur vonir um að ný lög um opinber fjármál muni auka aga og bæta vinnubrögðin og krafan um að hafa framtíðarsýn og stefnu er af hinu góða.

Þá vil ég beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort hún telji ríkið muni geta viðhaft þann sama aga og sveitarfélögin hafa nú sýnt.