144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

dagur helgaður fræðslu um mannréttindi barna.

397. mál
[14:58]
Horfa

Flm. (Páll Valur Björnsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið eða spurninguna og þakka henni fyrir góðar óskir til okkar. Ég lít á það sem óskir til okkar allra sem erum talsmenn barna á Alþingi.

Ég er alveg sammála því að ástandið er umhugsunarvert og það sem er að gerast á Alþingi þessa dagana eða í stjórnmálum yfir höfuð, þær ákvarðanir sem eru teknar sem virðist liggja ljóst fyrir að muni auka byrðar komandi kynslóða. Það er mjög óábyrgt.

Eitt af því sem var talað um þegar við fórum einn dag til umboðsmanns barna var að við ættum alltaf að leitast við — reyndar lít ég þannig á það sem stjórnmálamaður — að hafa viðmið við öllum ákvörðunum sem við tökum að þær þjóni hagsmunum allra borgaranna, ekki síst barna. Stjórnmál snúast allt of lítið um þau. Þau eru eiginlega alltaf utanveltu í allri umræðu í samfélaginu. Þau eru einhvern veginn aukahópur. Þess vegna kom sú uppástunga frá umboðsmanni barna og þeim sem hafa með þessi mál að gera á Íslandi að búa til þverpólitískan hóp sem gætti sérstaklega að því. Það er einmitt það sem maður verður að gera. Núna er maður búinn að skrifa undir yfirlýsingu um það að við skoðum öll mál út frá því, sérstaklega sem varðar börnin. Ég mun leitast við að gera það.

Þú sagðir fræðsludagur — mér finnst að það eigi alltaf, á hverjum einasta degi í skóla, að tala um mannréttindi og réttindi barna og ekki bara réttindi barna heldur allra, kenna börnum um mannréttindasáttmálann. Við verum með sáttmála fyrir fatlað fólk líka sem við þurfum enn frekar að bæta í. Við eigum alltaf að skoða það.

Það sem er verið að gera núna mun auka byrðar í framtíðinni og það er ámælisvert.