144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

dagur helgaður fræðslu um mannréttindi barna.

397. mál
[15:01]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég gleymdi gleraugunum. Ég var búin að lofa hv. þm. Páli Val Björnssyni að bera gleraugun, svo gleymdi ég þeim niðri þannig að … (Gripið fram í.) — Já, ég segi það, ég verð bara að bíta úr því. Það var eiginlega áskorun að við skyldum alltaf bera þessi gleraugu þegar við mundum tala um málefni barna.

Þetta var gleðistund í morgun og ofsalega gaman að sitja í Laugalækjarskóla þar sem var fullur salur börnum og ungmennum sem voru ánægð með daginn og byrjuðu hann á hafragraut og köku í tilefni dagsins. Þau sýndu okkur síðan vídeómynd sem nokkur þeirra tóku sem eru í mannréttindahópi skólans. Þau höfðu átt samtal við samnemendur sína um hvort þau vissu hvað barnasáttmálinn gengur út á og hvað mannréttindi eru. Það kom í ljós að þeim fannst vanta frekari fræðslu.

Ég held að það sé ljómandi vel til fundið að vera með dag helgaðan fræðslu um mannréttindi barna. Burt séð frá því, eins og hv. framsögumaður nefndi hér áðan, að komnir eru dagar um alla skapaða hluti, þá eru mannréttindi líklega eitt af því mikilvægasta sem við þurfum að fjalla um, ekki síst mannréttindi barna.

Samhliða sáttmálanum um réttindi barna er líka mikilvægt að við sem foreldrar, fullorðnir leiðbeinendur ungs fólks, kennarar eða hverjir það nú eru fræðum þau um skyldur sínar. Það er mikilvægt í því samhengi að allir sem hafa réttindi hafa líka skyldum að gegna. Það er mjög gott að taka það saman og ræða það þegar talað er um mannréttindi. Ég held að það sé alveg rétt sem kom fram í meðsvari hérna áðan að líklega þarf að fræða foreldra svolítið um mikilvægi þessa til að innihaldsrík samræða geti verið svolítið á þeirra forsendum. Oft og tíðum gerum við ráð fyrir því að ungmenni hafi minni skilning en þau hafa á hinum ýmsu málum. Það kom ágætlega fram á fundinum sem var haldinn í Hörpu í gær um framhaldsskólann þar sem unga fólkið talaði út frá eigin brjósti um það hvernig því hugnast þær breytingar sem verið er að gera á framhaldsskólakerfinu.

Við efnum allt of lítið til samræðu við ungt fólk þegar við tökum svona risastórar ákvarðanir. Ég tek undir að það er mjög mikilvægt að sinna þessari fræðslu. Það er jafnvel hluti af því að eiga einhvern tiltekinn dag að ýta undir og efla svona fræðslu. Við sem stjórnmálamenn og talsmenn í þessum málaflokki fjöllum um það fjármagn sem við ætlum að leggja fram til að barnasáttmálinn nái þeirri stöðu sem honum ber miðað við þá samþykkt sem var gerð og á að endurspegla þann vilja sem þar er og þau réttindi. Það er á okkar ábyrgð að sjá til þess að hægt sé að innleiða hann af því að ríkið hefur áhrif á sveitarfélögin með tiltekinni lagasetningu, fjármunum, styrkjum eða einhverju slíku sem hægt er að setja í málaflokkinn til þess að styðja við framkvæmdina. Ég held að við þurfum að gæta þess í öllum okkar ákvörðunum og velta því fyrir okkur oftar en ekki hvernig við horfum á unga fólkið sem meðborgara okkar, hvaða tækifæri það fær til að upplifa réttindi sín þannig að það sé eitt af því sem við skoðum svolítið betur hvert fyrir sig.

Við þurfum líka að íhuga ákvarðanirnar og praktískar nálganir í þessari vinnu. Getum við breytt einhverju? Getum við haft ákvarðanaferlið öðruvísi? Eigum við að kalla unga fólkið og fulltrúa þess oftar inn til okkar í nefndarvinnu? Öll mál hafi jú auðvitað áhrif á ungt fólk eins og eldra á einhverjum tímapunkti lífs þess en ég held að við getum gert svo miklu betur bara með því að kalla fulltrúa inn í alls konar vinnu þegar nefndir fjalla um tiltekin mál. Ungmenni eiga sér málsvara mjög víða, eins og í grunnskólum, framhaldsskólum og í gegnum ýmis æskulýðssamtök sem þau standa að.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að hafa þetta langt, ég ætlaði bara rétt að taka þátt í umræðunni og lýsa ánægju minni. Þessi morgunn var afskaplega ánægjulegur, eins og ég sagði áðan, gleðistund og gott að byrja daginn með þessum hætti.