144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[10:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Á fundi atvinnuveganefndar í morgun lagði formaður atvinnuveganefndar til að meiri hlutinn mundi leggja fram breytingartillögu við þingsályktunartillögu sem er til umfjöllunar í nefndinni um vernd og orkunýtingu landsvæða, þ.e. að Hvammsvirkjun verði færð í nýtingarflokk.

Nú bregður svo við að meiri hluti atvinnuveganefndar ætlar að leggja fram þá breytingartillögu að leggja alla átta kosti sem eru nú í bið í nýtingarflokk og ganga fram hjá rammaáætlun, að ég tel af miklum ruddaskap, og ætlar að gefa þessu eina viku í umsagnarferli. Þegar verkefnisstjórn skilar af sér eru það 12 vikur sem þurfa að vera í umsagnarferli. Mér finnst þetta vera svo ruddaleg vinnubrögð að ég treysti því að forseti grípi hér inn í.

Nóg er það að menn ætli að hafa uppi þau óvönduðu vinnubrögð að vinna algjörlega fram hjá verkefnisstjórninni og treysta henni ekki áfram til að vinna að þessu verkefni. En að gefa þessu eina viku í umsagnarferli er hneyksli og ég treysti því að forseti grípi þar inn í.