144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[10:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er dapurlegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra, sem ég hef nú annars í miklum metum, taka upp söguskoðun eins manns og lýsa henni sem einhverjum staðreyndum máls þegar við höfum hér þingskjöl og þingræður sem lýsa þeim umræðum sem fram fóru. Staðreyndin er sú að ef ætlunin er að fara með þetta mál eins og nú stefnir í er verið að gera svo róttækar breytingar á því að ekki er hægt að líta á það sem einfalda breytingartillögu.

Það er hárrétt, sem fram kom hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni, að það er mjög undarlegt að gera slíkar breytingar í miðri á og ætla að ljúka málinu hér með einni umræðu.

Staðreyndin er sú að þegar lögin um rammaáætlun voru samþykkt, alveg sama hvað hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra segir hér, þá byggðu þau á heildstæðri hugmyndafræði um sjálfbæra þróun. Þær virkjanir sem færðar voru úr nýtingarflokki í biðflokk byggðu á umsóknum sem bárust um málið og gefinn var talsvert lengri tími en ein vika til að veita þær umsagnir.

Samkvæmt lögunum ber þinginu að senda málið í umsagnarferli eftir að það kemur frá verkefnisstjórn og hlustað var á þær umsagnir. Þannig eru staðreyndir málsins og betra að fólk hefði þær rétt yfir.