144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[10:42]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þátttaka hæstv. fjármálaráðherra í umræðum um þennan lið staðfestir að þetta er ríkisstjórnarákvörðun. Þetta er ekki einkaflipp formanns atvinnuveganefndar, eins og ég var að vona, heldur er augljóst að hann hefur ríkisstjórnina og formann sinn sér að baki. Hann kom hér hratt upp til að reyna að verja þessa ákvörðun innan atvinnuveganefndar og svipurinn á ráðherrabekkjunum segir mér að menn séu aldeilis í stuðningsliði formanns þeirrar nefndar í því að ýta til hliðar öllum faglegum sjónarmiðum hvað varðar rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða á Íslandi.

Virðulegi forseti. Allt er á sömu bókina lært með þessa ríkisstjórn. Faglegum sjónarmiðum er ýtt til hliðar og sjónarmiðið „ég á þetta, ég má þetta“ hefur tekið við á öllum sviðum samfélagsins, líka í þessu.

Verkefnisstjórnin er búin að segja að hún treysti sér ekki til að mæla með því að (Forseti hringir.) aðrir kostir en þessi eini, sem um er að ræða í þingsályktunartillögunni, verði afgreiddir inn í nýtingarflokk. Gegn þeim sjónarmiðum ætla menn að ganga með þetta að vopni: „Ég á þetta, ég má þetta“.