144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[10:46]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er hreint með ólíkindum að hlusta á hv. stjórnarandstöðuþingmenn halda því fram að verið sé að rjúfa einhverja sátt. Það er nákvæmlega það sem gerðist á síðasta kjörtímabili með þeirri málsmeðferð sem var viðhöfð í umfjöllun um rammaáætlun á þeim tíma.

Besti vitnisburðurinn um það er sú bók sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vitnaði hér til áðan, bók Össurar Skarphéðinssonar. Þar er lýst mjög ítrekað þeim hávaðafundum sem voru út af þessu máli og hvernig líf ríkisstjórnarinnar hékk á bláþræði. Það endaði svo með handabandi á fundi hans, Jóhönnu Sigurðardóttur og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Þetta endaði með handabandi þeirra, þar var það innsiglað að stjórnin mundi lifa, ESB-viðræður mundu halda áfram og umræddir virkjunarkostir yrðu færðir í biðflokk. Er það málefnaleg umræða? Er það faglegt mat? Svo kom eitthvert leikrit hér á eftir til að fylgja þessu eftir og ná markmiðunum.

Margt er hægt að segja um þetta mál en ekki er hægt að saka okkur um að vera að rjúfa sátt í því. (Forseti hringir.) Hún var rofin á sínum tíma, hin faglegu vinnubrögð, sem viðurkennt var þverpólitískt að verkefnisstjórn við 2. áfanga rammaáætlunar (Forseti hringir.) hefði viðhaft í málinu, sú sátt var rofin þá. Allt það faglega mat liggur fyrir um alla þessa virkjunarkosti frá þeirri verkefnastjórn.