144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[10:49]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get vel skilið að það geti staðið nokkur styr um þetta mál. Kosturinn við þessa málsmeðferð er sá að hægt er að takast á við málið hér á þingi, það er uppi á borðum. (Gripið fram í: Já.) Hér geta menn (Gripið fram í.) rætt þetta mál og tekið afstöðu til þess.

Það var ekki hægt og hefði ekki verið hægt að taka nokkra afstöðu til þess fundar sem hv. þm. Jón Gunnarsson lýsti hér áðan og er lýst í bók hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Við hefðum aldrei frétt af þeim hrossakaupum og þeirri meðferð á máli ef hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefði ekki haft hugrekki til þess að lýsa því í bók sinni. Ég tel, virðulegi forseti, að þeir sem stóðu að því samkomulagi og studdu það og báru ábyrgð á því ættu nú að fara varlega í ummælum sínum í þinginu um þetta mál og gæta að því að hafa eitthvert samræmi á milli orða sinna og gerða.