144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[11:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Oft hefur mér fundist málflutningur ríkisstjórnarflokkanna aumur, en það að geta ekki vísað í aðrar heimildir en jólabókaflóðið í fyrra máli sínu til stuðnings er náttúrlega alveg afskaplega vandræðalegt. Jólabókaflóðið í fyrra er rökstuðningur eða uppistaða rökstuðnings ríkisstjórnarflokkanna.

Nú þegar verndarflokkurinn er gjörsamlega hunsaður og óbættur stendur til að sjöfalda tillöguna sem kom frá umhverfisráðherranum. Það heitir breytingartillaga. Tillaga hæstv. ráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar sinnum sjö er breytingartillaga.

Ég geri kröfu um eða beini þeirri auðmjúku ósk til hæstv. forseta að hlé verði gert á þingfundi og fundað með þingflokksformönnum um að þessi tillaga fái þinglega meðferð, raunverulega þinglega meðferð, umræðu og kynningu í samfélaginu til samræmis við (Forseti hringir.) alvarleika málsins. Annað er ótækt.