144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[11:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé augljóst, af þeim umræðum sem hér hafa verið og þeim ummælum sem hafa verið látin falla, bæði af hæstv. ráðherrum og hv. formanni atvinnuveganefndar, að við þurfum að gera hlé á þessum fundi. Ég vil taka undir orð hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur og biðja forseta um að gera hlé á þessum fundi, kalla þingflokksformenn saman þar sem við leggjumst yfir hlutina og athugum hvort það sé hreinlega þingtækt að fara svona að.

Ég bið hæstv. forseta að meta þessar umræður, meta þungann í þeim, bæði frá minni hluta og meiri hluta, og fallast á þá tillögu þingflokksformanna að hlé verði gert, að við förum yfir málið og athugum hvort hægt er að ná sanngjarnri niðurstöðu, a.m.k. um málsmeðferð þó að við getum ekki verið sammála um tillögurnar, það er auðvitað af og frá.