144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[11:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég er sammála forseta um að það er engin ástæða til að fresta fundi.

Það hefur margt komið fram sem er afar athyglisvert. Hér tala menn um hræsni. Fyrrverandi stjórnarmeirihluti sem var hér við völd virðist búinn að gleyma því að það var pólitísk ákvörðun að færa virkjunarkosti úr nýtingu yfir í vernd og bið. Það var undirstrikað og staðfest í [Kliður í þingsal.] ákveðinni bók að þetta (Gripið fram í.) voru pólitísk hrossakaup milli þeirra flokka. (Gripið fram í: … segja satt.) En það snýst kannski ekki um það. — Já, ég held að menn ættu einmitt að segja satt hér.

Svo tala menn líka um hræsni. Sömu menn sækja um leiðréttingu og eru á móti henni o.s.frv. Það er hræsni. (Gripið fram í.) Ég vil hins vegar nefna eitt hér (Gripið fram í.) sem ég held að (Gripið fram í: Icesave.) sé aðalmálið í þessu öllu saman.

(Forseti (EKG): Forseti vill biðja um hljóð í þingsalnum meðan hæstv. ráðherra talar.)

Menn hafa áhyggjur af því að ekki sé veittur nægur umsagnarfrestur um þetta mála. Ég held að það sé einfaldast að bregðast við því með því að lengja umsagnarfrestinn. Ég skil ekki alveg vandamálið við þetta allt saman.

Ég vil líka taka það fram að þetta mál hefur aldrei verið rætt í ríkisstjórn. Þetta er mál sem kom upp í nefndinni og það á þá bara heima þar. (Forseti hringir.) Ég legg hins vegar áherslu á að menn (Forseti hringir.) reyni að róa umræðuna og lengja þann umsagnarfrest sem beðið er um. Mér finnst það sjálfsagt mál því að ekki er þetta eitthvert mál sem er (Gripið fram í.) efst á lista (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar.