144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[11:14]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er augljóst að í gang eru komnar söguskýringar eins og sú hverju var breytt í lokameðferðinni eftir allan umsagnarfrestinn síðast, þ.e. að færa ákveðin atriði úr nýtingu í bið. Ég vakti athygli á því á þeim tíma að ef stjórnarandstaðan hefði ekki verið að þvælast fyrir væri löngu búið að afgreiða alla þessa þætti formlega í gegnum verkefnisstjórn.

Gott og vel, við sitjum uppi með þetta vandamál núna. Ég skora á hv. þm. Jón Gunnarsson, formann atvinnuveganefndar, að gera þau atriði sem hér koma fram að sjálfstæðri tillögu sem fær þá sjálfstæða umfjöllun. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) Þá geta menn fjallað um þetta með eðlilegum hætti. Eðlilegast væri auðvitað að ráðherrann kæmi með hana líka eða flytti hana. (Gripið fram í.) Þá gætum við afgreitt Hvammsvirkjun sem er sjálfstætt mál og búið að fjalla ágætlega um og er búið að fá afgreiðslu. Hin átta atriðin gætu þá komið með sama hætti og fengið eðlilega tvöfalda umræðu, útsendingartíma frá nefndinni o.s.frv. Það væri alla vega leið til þess að komast út úr þessum ógöngum (Forseti hringir.) og þeim frekjustjórnmálum sem hér er verið að (Forseti hringir.) sýna.