144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[11:15]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að hv. þm. Jón Gunnarsson hafi bent á það ágætlega í ræðu sinni að gert væri ráð fyrir því að þeir sem vildu veita umsögn tækju þann tíma sem þeir þyrftu og ég heyri ekki annað en að hægt sé að ná [Frammíköll í þingsal.] sátt í þessu máli. Hérna er um að ræða málsmeðferð sem ég sé ekki annað en komið hafi skýrt fram hjá hv. formanni nefndarinnar að eigi að vera hægt að lenda nokkuð auðveldlega.

Ég vil að gefnu tilefni segja þetta: Það er ekki svo að til fyrirmyndar sé fyrir þessa ríkisstjórn eða þennan ríkisstjórnarmeirihluta sú atburðarás sem lýst var í bók Össurar Skarphéðinssonar, fjarri lagi. Það er ekki til eftirbreytni. Á því hljóta hv. þingmenn að átta sig. Enginn hefur þó enn staðið hér upp og neitað því beint sem þar kemur fram. Það er áhugavert. (Gripið fram í.) Menn hafa haft mismunandi túlkun eða skoðun á því en ég hef engan heyrt segja hér að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi farið rangt með og sagt ósatt í bók sinni. En ég geri þó mun á því að gera hlutina, eins og lýst er í bók hv. þingmanns, í bakherbergjum þar sem enginn heyrir til eða (Forseti hringir.) að gera það í þingsölum og á nefndarfundum þannig að menn geti (Forseti hringir.) komið fram sjónarmiðum sínum og tekist á um hlutina.