144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

breytingar á virðisaukaskatti.

[11:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Við lækkum skatta á fólk um 6 milljarða. Það er það versta sem Samfylkingin getur hugsað sér, það má bara alls ekki. Að taka vörugjöld af 800 vöruflokkum, það er fásinna að mati Samfylkingarinnar, það má bara ekki gerast. Að laga virðisaukaskattskerfið, gera það skilvirkara, lækka efsta þrepið í það lægsta sem það hefur verið í sögunni, nei, Samfylkingin er á móti. Það má ekki gerast. Það má ekki lækka efra þrep virðisaukaskattsins í það lægsta sem það hefur verið í sögunni, nei, alls ekki. Og að kaupmáttur allra tekjutíunda vaxi, þvílík hörmung. Samfylkingin nær kannski ekki upp í nef sér af skömm fyrir síðustu ár, þegar kaupmáttur ráðstöfunartekna fór síminnkandi.

Núna horfir til betri tíðar vegna þess að á næsta ári mun, sem afleiðing af þessum breytingum, kaupmáttur allra vaxa. Fólk mun hafa meira á milli handanna um hver mánaðamót sem bein afleiðing af nákvæmlega þessum tillögum.

Hvað stendur eftir af gagnrýninni? Að flækjustigið vaxi við það að afnema vörugjöld af 800 vöruflokkum? Heyr á endemi.