144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

verkefnisstjórn rammaáætlunar.

[11:36]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil í fyrsta lagi geta þess að sú sem hér stendur skipar hvorki né leysir verkefnisstjórn frá störfum þar sem það er á forræði umhverfisráðherra eftir breytingar í tíð síðustu ríkisstjórnar. Því er til að svara varðandi það mál.

Varðandi þá tillögu sem hér liggur fyrir frá atvinnuveganefnd og rædd var áðan tel ég að sjálfsagt sé að skoða hana og að kalla eftir athugasemdum við hana eins og nefndin leggur til. Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína frá því verkefnisstjórn skilaði af sér því verkefni sem henni var falið, þ.e. að skoða þessa átta virkjunarkosti, að hún lauk ekki því verkefni heldur tók á endanum út þrjá virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár og bar þá saman. Það þótti mér ekki vera í samræmi við það verkefni sem henni var falið og því hef ég gagnrýnt það.

Fram hafa komið ný gögn í þessu máli eins og formaður atvinnuveganefndar greindi frá áðan. Ég vek athygli á því að fulltrúi ráðuneytis míns, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, í verkefnastjórninni gerði fyrirvara við afgreiðslu verkefnisstjórnar vegna þess að ekki hafði verið tekið tillit til gagna sem komu m.a. frá Landsvirkjun um málið við afgreiðslu verkefnisstjórnarinnar. Ég tel því fulla ástæðu til þess að fara vel yfir þessa kosti.

Þrátt fyrir umræðurnar hérna áðan hafi verið heitar og fólki hafi verið heitt í hamsi held ég að við séum öll sammála um að viljum koma rammaáætlun aftur á þann stað sem hún var á — áður en síðasta ríkisstjórn greip fram fyrir hendurnar á þáverandi verkefnisstjórn. Þar fórum við út af sporinu. (Forseti hringir.) Nú legg ég til að við komum henni í sameiningu (Forseti hringir.) aftur upp á teinana. (Gripið fram í.)