144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

skilgreining grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins.

[11:41]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort til sé skilgreining í lögum eða hjá hinu opinbera á því hvað sé grunnþjónusta heilbrigðiskerfisins. Ef svo er, hver er hún? Ef ekki, stendur til að útbúa hana formlega og þá á hvaða sviði ákvarðanatöku, í lögum eða reglugerð eða hjá heilbrigðisyfirvöldum eða hvar?

Það er klárlega Alþingis að setja fjárlög og ákveða hverju skuli úthluta til heilbrigðiskerfisins. Ég held að það sé nokkuð ljóst að stór meiri hluti landsmanna vill forgangsraða þangað. Nú hefur forstjóri Landspítalans gefið upp áætlun um það hvað þurfi til að hægt sé að sinna því sem hann skilgreinir sem ákveðna grunnþjónustu. Það virðast ekki vera til peningar eða vilji til þess að tryggja það. Þá er spurningin: Á að reka hann? Ef hann segir að þetta sé nauðsynlegt, Alþingi segir að svo sé ekki, er þá þetta þá maður sem á að sinna þessu starfi?

Grunnspurningin er: Er til skilgreining á grunnþjónustu?

Staðan sem er svo bagaleg fyrir lækna er sú að þegar þetta er ekki skýrt, eins og það er skýrt í neyðarmóttöku hvernig eigi að forgangsraða sjúklinginn inn — ef það er ekki skýrt varðandi heilbrigðisþjónustu þá er erfitt fyrir lækninn að sinna eið sínum eins og segir í 5. gr. siðareglna Læknafélags Íslands, með leyfi forseta:

„Lækni sæmir ekki að láta hagsmuni óviðkomandi sjúklings hafa áhrif á ákvarðanir sínar þegar hann veitir eða vísar á heilbrigðisþjónustu.“

Læknar þurfa að vita þetta. Landsmenn þurfa líka að vita hver grunnþjónustan er. Á hverju eigum við rétt fyrir alla þá skattpeninga sem eru lagðir í þennan málaflokk?