144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

skilgreining grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins.

[11:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Svo að því sé svarað skýrt og einbeitt þá er engin nákvæm skilgreining í lögum á því hvað grunnþjónusta er. Það er hins vegar hugtak sem ég held að hafi bara tekið á sig mynd í gegnum tíðina, almenningur hefur þokkalega góðan skilning og samstöðu um hvað telja má til grunnþjónustu í samfélaginu.

Alþingi er ekki í fjárlagagerð sinni að úthluta fjármunum til reksturs heilbrigðiskerfisins á grundvelli nákvæmra skilgreininga á því hvaða tilteknu þáttum í heilbrigðisþjónustu, t.d. Landspítalinn, á að sinna. Ég hef óskað eftir því við Sjúkratryggingar Íslands og Landspítalann að hefja viðræður um skilgreiningu á þeim verkefnum sem Landspítalanum eru falin með lögum, á grundvelli laga um heilbrigðisþjónustu, að við gerum innihaldslýsingu á þeim fjárveitingum sem fara til þeirra verkefna sem Landspítalanum er ætlað að sinna. Þetta er svokallað DRG-kerfi og er nýtt víða um heim. Sérstaklega hefur verið horft til þess í samanburði við Norðurlöndin.

Landspítalinn er búinn að keyra og á ágætan grunn undir þetta í ljósi hátt í 10 ára reynslu. Ég tel tímabært að við förum að færa fjárveitingarnar yfir í heilbrigðisþjónustuna á grundvelli mælinga og óska þingsins um hvaða þjónusta verði veitt. Það færir okkur nær betri skilningi á því hvað við teljum til grunnþjónustunnar sjálfrar.

Varðandi fjárveitingar til Landspítalans, eins og komið hefur fram og kom fram í ágætu viðtali við forstjóra Landspítalans í morgun, telur hann þetta mjög mikil tímamót í fjármögnun Landspítalans samkvæmt þeim tillögum sem legið hafa fyrir í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár (Forseti hringir.) og eru að bætast inn núna. En að sjálfsögðu eru verkefnin þannig, (Forseti hringir.) eins og ég hef áður sagt úr þessum ræðustól, að við getum (Forseti hringir.) alltaf nýtt meiri fjármuni í heilbrigðisþjónustu en okkur er skammtað (Forseti hringir.) á fjárlögum hvers árs.