144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

áætlun um afnám gjaldeyrishafta.

[11:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil inna hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra eftir nokkrum atriðum sem lúta að framvindu áætlunar um afnám gjaldeyrishafta. Hæstv. forsætisráðherra boðaði að stórtíðinda væri að vænta í þeim efnum nú á dögunum, austan af Hornafirði ef ég man rétt. Hæstv. forsætisráðherra hefur svo sem áður blásið í herlúðra þó að lítið hafi af því sprottið, samanber það að hann, í júníbyrjun 2013, boðaði nýja áætlun um afnám gjaldeyrishafta strax í september það ár og yrði hún byggð á hans eigin hugmyndum um hvernig fljótt og vel væri hægt að afnema gjaldeyrishöftin.

Nú eru senn 14 mánuðir liðnir síðan september 2013 var allur og engin ný gjaldeyrisafnámsáætlun hefur litið dagsins ljós. Ég vil þar af leiðandi spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, þannig að ekki sé vafi uppi í þeim efnum: Er ekki algerlega hafið yfir vafa að upphafleg áætlun frá því í apríl 2011 er í fullu gildi og unnið er samkvæmt henni? Úr því að hæstv. ríkisstjórn hefur valið að móta sér ekki nýja áætlun þá gildir sú gamla og það er unnið samkvæmt henni. Ég vísa í þeim efnum meðal annars í greinargerðir hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til þingsins um framgang áætlunar um losun fjármagnshafta. Sú þriðja kom í september 2014 og þar er sérstaklega vitnað í að Seðlabankinn haldi áfram gjaldeyrisútboðum sínum í samræmi við áætlun um afnám hafta sem birt var í mars í 2011.

Í öðru lagi: Nú tala menn um að fara í næsta skref sem útgönguskatt og heyrast hreystilegar yfirlýsingar um að hann verði jafnvel 35%. Því spyr ég: Í ljósi þess að í þessari upphaflegu áætlun um afnám gjaldeyrishafta frá því í mars 2011 er talað sérstaklega um að annar áfangi aðgerðanna verði útgöngugjald eða útgönguskattur stendur þá einnig til að byggja á áætluninni hvað það varðar og hyggst þá hæstv. ríkisstjórn halda sig við áætlun fyrri ríkisstjórnar um afnám gjaldeyrishafta í næstu skrefum rétt eins og hún hefur gert hingað til?