144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

áætlun um afnám gjaldeyrishafta.

[11:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau voru yfirveguð og í þeim anda sem ég hef oftast heyrt hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra tala um þetta vandasama mál, öfugt við hæstv. forsætisráðherra sem talar á köflum mjög glannalega.

Ég held að það sé réttara að orða þetta eins og það er. Hæstv. ráðherra sagði hér: Jú, það er rétt, það hefur ekki verið sett önnur heildstæð áætlun. Er ekki rétt að orða þetta eins og það er? Það hefur engin ný áætlun verið sett. Sú gamla er í gildi og það er unnið samkvæmt henni. Seðlabankinn virðist a.m.k. vera með það á hreinu og eins hæstv. ráðherra þegar hann skilar greinargerð til þingsins og vísar í áætlunina frá 2011.

Ég held að það sé góð samstaða um markmiðin. Við þurfum ekki að óttast ágreining um það að afnámið þurfi að takast þannig að hvorki gjaldeyrisstöðugleika né greiðslujöfnuði þjóðarbúsins sé ofboðið. Ég held að það hafi verið ágæt vinna, a.m.k. það sem ég hef séð af henni, sem hefur verið unnin í kortlagningunni. Ég hef meiri áhyggjur af því hvernig sumir ónefndir aðilar í kringum ríkisstjórnina tala (Forseti hringir.) um þessi mál. Ég bið menn að stíga varlega (Forseti hringir.) og yfirvegað til jarðar í því risavaxna verkefni okkar (Forseti hringir.) sem allt sem tengist gjaldeyrishöftunum er.