144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[12:00]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Sem nefndarmaður í atvinnuveganefnd sem því miður komst ekki á fundinn í morgun verð ég að taka undir það sem sagt hefur verið, að hér er um frekar óvönduð vinnubrögð að ræða. Í fyrsta lagi var málið ekki á dagskrá fundarins. Ég skoða alltaf dagskrá fundar og fer yfir það sem þar er. Þetta mál um Hvammsvirkjun var ekki á dagskrá. Þar að auki skilst mér að engin skrifleg tillaga hafi verið lögð fram um þetta heldur eingöngu munnleg.

Virðulegi forseti. Mér er mjög umhugað um vönduð og góð vinnubrögð á Alþingi. Ég hef áður sagt það úr þessum ræðustól að ég dáist að því og er ánægður með að þingnefndir taka sér meira frumkvæði, séu ekki bara einhver skilaboðaskjóða frá viðkomandi ríkisstjórn. En þessi vinnubrögð eru ekki til álitsauka fyrir Alþingi. Þess vegna harma ég það sem þarna var gert, að málið hafi verið sett fram á þennan hátt og í raun og veru sett í upplausn. Mér fannst töluverð sátt vera að skapast um þá tillögu sem liggur fyrir þinginu, þ.e. (Forseti hringir.) um Hvammsvirkjun.