144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[12:05]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti áréttar að hann hefur tekið vel í að fundur verði með þingflokksformönnum til að ræða þessi mál. Forseti telur hins vegar ekkert tilefni til þess að það sé gert hér og nú. Það er nægur tími í sjálfu sér vegna þessa máls. Það hefur komið fram að þessi tillaga hafi verið kynnt munnlega. Það hefur líka komið fram vilji hv. formanns nefndarinnar um að hann sé tilbúinn til að gefa frekara rými. Það hefur verið áréttað, af að minnsta kosti einum hæstv. ráðherra, að það sé gert.

Forseti vill reyna að finna tíma síðar til að ræða þessi mál með þingflokksformönnum, telur líka að það væri til þess fallið að reyna að leysa það mál að forseti fengi tíma til að kynna sér málavöxtu sem hann þekkir ekki og vill þess vegna hvetja til þess að þessari umræðu verði sem fyrst lokið þannig að við getum snúið okkur að því sem er næsta verkefni sem er að gera hlé í 15 mínútur til að undirbúa atkvæðagreiðsluna eins og óskir hafa komið fram um frá nokkrum þingflokksformönnum; forseti tók að sjálfsögðu vel í það og vill þess vegna hvetja til þess að forseti sjálfur fái nú aðeins næði til að setjast yfir þetta mál áður en hann boðar til fundar þingflokksformanna til að reyna að átta sig að minnsta kosti á því hver staða þessa máls er.