144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[12:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er eiginlega með hálfum huga að maður biður um orðið. Maður skynjar nokkurn áhuga hæstv. forseta á því að þessum orðaskiptum fari að ljúka. Ég geri það engu að síður af því að ég tel vera alvörumál á ferð. Út af fyrir sig hefur forseti tekið vel og skynsamlega í það að funda með formönnum þingflokka enda geri ég ráð fyrir að forseti skynji alvöru málsins og átti sig á því hvílíkt ófriðarefni gæti verið hér á ferð sem mundi hafa mjög lamandi áhrif á þingstörfin.

Ég hef skilning á því að forseti vilji fá tóm til að kynna sér aðstæður í málinu, og ég hjó eftir því að hæstv. forseti talaði á þeim nótum að ekki mundu gerast þeir atburðir í því á meðan að til stórskaða væri. Ég held að það sé eitt ráð til að tryggja það og það er að hæstv. forseti komi þeim skilaboðum rakleiðis til formanns atvinnuveganefndar að nú skuli hann hafa sig hægan á meðan forseti og þingflokksformenn fara yfir stöðuna í málinu. Og af því að hæstv. forseti þekkir vel til sjávarútvegsmála og sömuleiðis formaður atvinnuveganefndar (Forseti hringir.) þá er stundum notað það orðalag að setja hluti eða jafnvel menn á ís þegar svona stendur á.