144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[12:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá loksins orðið. Það má segja að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem talaði hér á undan, hafi nokkurn veginn orðað hugsun mína. Hér hefur verið kynnt að verið sé að fara af stað í ferli í hv. atvinnuveganefnd. Hér hefur verið kynnt að það eigi að senda glænýja tillögu til umsagnar. Upphaflegur frestur er nefndur ein vika, en það hefur ekkert verið sagt hvað megi lengja hann mikið heldur bara „ef óskir berist“. Ég átta mig ekki á því. Ef ég óska eftir hálfs árs fresti, fæ ég hann? Það hefur ekkert komið fram um það.

Það gengur ekki að svona ferli fari algjörlega stjórnlaust af stað. Þess vegna erum við að ýta á hæstv. forseta. Ég hef fullan skilning á því að hæstv. forseti vilji skoða málið. Ástæðan fyrir þunganum í málflutningi okkar í þessu máli er sú að hér er verið að setja í gang eitthvert ferli — stjórnlaust ferli, segi ég — sem er ekki í takt við lögin, sem er ekki í takt við hugmyndafræði laganna, hvorki anda né bókstaf.

Ég spyr því: Verður þá séð til þess að slíkt ferli fari ekki af stað fyrr en sá fundur (Forseti hringir.) sem hér hefur verið beðið um verður haldinn þannig að hæstv. (Forseti hringir.) forseti geti farið yfir þau sjónarmið sem við höfum reifað?