144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

beiðni um fund með þingflokksformönnum.

[13:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að hv. þingmenn hafi heyrt ágætlega það sem forseti sagði áðan og fyrr í umræðunum í dag. Hins vegar held ég að það mundi létta á og greiða fyrir þingstörfum ef forseti gæti tímasett þennan fund og við vissum hvenær hann yrði í dag. Málið er þannig vaxið að það er ekki hægt að láta eins og ekkert sé og renna bara inn í dagskrá eins og hún var ákveðin áður en þetta mál kom upp. Málið kemur upp í morgun og þarna er brotið á fulltrúum, leyfi ég mér að segja. Dagskrá er ekki prentuð og auglýst. Málið er tekið utan dagskrár og flutt munnlega, mjög og stór og afdrifarík tillaga, og ferli sett af stað. Það verður að taka á þessu máli strax.

Ég fagna því að forseti hefur í hyggju að halda fund. En ég óska eftir því að hann verði tímasettur sem fyrst svo að önnur þingstörf geti gengið greiðlega fyrir sig.