144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

beiðni um fund með þingflokksformönnum.

[13:06]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég þykist nú heyra góðan vilja virðulegs forseta í þessu máli en sá góði vilji er ekki alveg nóg. Mér finnst að hann ætti jafnvel að taka á sig einn krók í viðbót til að reyna að verða við óskum stjórnarandstöðunnar. Mér finnst það svolítið lýsandi fyrir hvernig þetta er. Forseti er þekktur fyrir að setja sig vel inn í þau mál sem eru á dagskrá og eru til umræðu hverju sinni en hann þarf núna sérstakan tíma til að setja sig nákvæmlega inn í málið sem er verið að mótmæla að sé hent í þingmenn með engum fyrirvara. Það er kannski lýsandi dæmi um að rétt væri að fresta fundi til að forseti setti sig inn í þetta og síðan hæfist atkvæðagreiðsla eftir það og eftir það umræðan sem stjórnarandstaðan hefur beðið um og forseti vinsamlegast orðið við. Það er allt í lagi þó hún dragist til (Forseti hringir.) sex eða sjö.