144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

beiðni um fund með þingflokksformönnum.

[13:15]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að ég kem ekki hér upp til þess að pirra hæstv. forseta, ég vona að hann fyrtist ekki við því að ég er farin að finna að þetta þykir óþægilegt mál. Forseti hefur talað um að hann þurfi að afla sér upplýsinga. Ég vil að það komi fram að það var ýmislegt á fundi atvinnuveganefndar sem ekki var í lagi. Málið var til dæmis ekki á dagskrá, það var aldrei sett á dagskrá. Við, nefndarmenn í hv. atvinnuveganefnd, vissum ekki, alla vega ekki í minni hlutanum, að það ætti að fara að ræða það sérstaklega. Annað var að ekki var samþykkt að senda breytingartillöguna út til umsagna. Það var aldrei samþykkt á fundinum.

Ég hef áhyggjur af því, af því að hér hefur verið rætt um eina viku í umsagnarfrest, að ritari nefndarinnar viti kannski ekki alveg í hvorn fótinn hún á að stíga í þessu máli eða hvort breytingartillagan hefur verið send aftur út til umsagna í þessa einu viku án samþykkis. Við þurfum að hafa það á hreinu af því að ég býst við að þetta sé bara að gerast núna.