144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

beiðni um fund með þingflokksformönnum.

[13:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég legg til við hæstv. forseta að hann eigi fund með okkur í atvinnuveganefnd svo að hann geti kynnt sér málið sem best og farið yfir hvernig þessi mál hafa þróast í nefndinni og hvernig þetta æxlaðist allt saman í lok fundar undir önnur mál þegar fundi átti í raun að vera lokið. Ég tel að það gæti liðkað eitthvað fyrir ef við fulltrúar í atvinnuveganefnd ræddum við forseta um þetta mál.

Það er með ólíkindum að hæstv. ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson skuli ekki treysta sér sjálfur til að flytja þetta mál ef hann eða ríkisstjórnin ber það fyrir brjósti, heldur ætli að reyna að skjóta því í gegnum atvinnuveganefnd og fá á því skemmri skírn. Það er ekki mikil reisn yfir því að láta þetta fylgja sisona sem einhvern fylgifisk. Það er verið að segja stríð á hendur þjóðinni með svona vinnubrögðum gagnvart náttúru landsins sem getur ekki talað fyrir sig sjálf. (Gripið fram í: Jú, jú.) Til þess hefur hún fulltrúa á þingi. (Forseti hringir.) Það erum við að gera, hæstv. forseti.