144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[13:26]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að fagna því að frumvarpið endurspeglar bætta innkomu í skatttekjum og atvinnulífið er að taka við sér. Það er gott eftir mögur ár frá hruni. En stærstu tíðindin í þessu finnast mér vera þau að þarna koma inn mjög stórir óreglulegir tekjuliðir, miklar, óreglulegar tekjur, eins og arðgreiðslur frá Landsbankanum. Ég get ekki alveg tekið undir í umfjöllun um þetta frumvarp að agi ráði för hjá meiri hlutanum. Á milli 1. og 2. umr. eru þessir 16 milljarðar sem koma frá Landsbankanum, arðgreiðslur úr fjármálakerfinu, teknir og settir í skuldaleiðréttingar. Það er ekki alveg í samræmi við hugmyndafræðina um að fjáraukalögin eigi nú frekar að endurspegla (Forseti hringir.) óvæntar uppákomur. 16 milljarðar eru teknir og settir í skuldaleiðréttingar, þeir eru ekki settir til hliðar í þágu (Forseti hringir.) forsjálni og þess að bæta stöðu ríkissjóðs eða bæta innviðina. Nei, nei, þeir fara í þetta — í vitleysu að mínu mati.