144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[13:38]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér sjáum við svart á hvítu afleiðingarnar af einbeittum vilja ríkisstjórnarinnar til þess að létta veiðigjöldum af útgerðinni. Þetta er þeim mun athyglisverðara og mikilvægara þegar haft er í huga að nú liggur það orðið ljóst fyrir að afkoma útgerðarinnar hefur ekki verið betri nokkru sinni í Íslandssögunni en undanfarin ár eftir greiðslu veiðigjaldanna sem stjórnarflokkarnir halda fram kvölds, morgna og um miðjan dag að séu að ganga af greininni dauðri. Það eru engar efnislegar forsendur fyrir þeirri ályktun að það þurfi stöðugt að draga úr álagningu eðlilegra veiðigjalda, heldur þvert á móti hefur verið sýnt fram á að greininni gengur mjög vel ásamt því að greiða eðlileg veiðigjöld.