144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[13:45]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um tillögu frá meiri hluta fjárlaganefndar um að skera niður framlög til Alþingis um 8 milljónir vegna fasteigna. Það er rétt að þingheimur geri sér allur grein fyrir því að þetta er vegna lagfæringa á húsum þar sem rakaskemmdir hafa komið upp, myglusveppur og annað, og það er í raun alveg með ólíkindum að meiri hluti nefndarinnar skuli ráðast svo á starfsemi Alþingis eins og hér er.

Þetta er nýtt, yfirleitt hefur Alþingi þurft að eiga sitt við hæstv. ríkisstjórn um fjárframlög en hér kemur það í meirihlutatillögum að skera þetta niður um 8 milljónir á þessu ári. Þetta er í raun alveg með ólíkindum. Mig vantar skýringar á því hvers vegna þessi tillaga er gerð af meiri hlutanum. Hvað er verið að gera hér? Þetta er algjörlega óásættanlegt að mínu mati, virðulegi forseti.