144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[13:51]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mun styðja þessa tillögu og fagna því að sett er meira fjármagn í Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, en langavitleysan heldur áfram. Það er löngu orðið tímabært að menn taki ákvarðanir um framtíð þessa skóla.

Nú hafði hæstv. ráðherra hugmyndir um það að skólinn ætti að sameinast Háskóla Íslands. Af því varð ekki og þá átti að beita skólann refsiákvæðum með því að skera niður og greiða niður halla. Sem betur fer er með þessu fjármagni aðeins komið til baka en eftir sem áður standa bæði uppsagnir og samdráttur hvað varðar þessa skólastofnun. Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt að menn vinni úr þessum málum og klári þau. Sama gildir um Háskólann á Hólum þar sem verið er að bæta inn fjármagni, að vísu eingöngu vegna kalskemmda í túnum sem tilheyra skólanum. Þarna verður að gera miklu betur, þarna eru tveir mjög mikilvægir (Forseti hringir.) atvinnugreinaskólar í landinu, starfsmenntaháskólar sem þurfa aðhlynningu okkar alþingismanna.