144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[13:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég styð heils hugar þá tillögu sem hér liggur fyrir varðandi framlag til Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Háskólans á Hólum en ég get vissulega tekið undir það að gögn eigi að liggja fyrir þegar verið er að fjalla um svona mál í fjárlaganefnd og mundi ætla að auðvelt væri að nálgast þau gögn til að rökstyðja það. En ég hvet stjórnvöld til að taka á vanda þessara skóla, þar á meðal Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Þessir skólar virðast óhreinu börnin hennar Evu hjá ríkisstjórninni og ef ríkisstjórnin ætlar endalaust að guggna á því að taka á þessum vanda munu þessir skólar koðna niður. Það þýðir ekki að segja að vandinn sé fortíðarvandi, einhvern tímann verður að taka á fortíðarvandanum og hafa kjark til þess, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Nú eruð þið við völd og nú skuluð þið hafa kjark til þess að taka á þessum vanda og sýna fram á að (Forseti hringir.) þið viljið að þessir skólar lifi og dafni. Ég tel að full ástæða sé til að við stöndum vörð um þá.