144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:05]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er því miður ekki í fyrsta skipti sem hv. formaður fjárlaganefndar fer með vitleysu úr ræðustóli. Það var ekki þannig að táknmálstúlkar fengju 45% hækkun á launum í maí 2013, þótt þeir hefðu verið fullsæmdir af því. Ég mundi styðja það en það var ekki þannig. Þetta var hækkun á gjaldskrá.

Það sem er verið að gera hér, (Gripið fram í.) og ég fagna því, (Gripið fram í.) er að táknmálstúlkun í daglegu lífi er að hækka um 4,5 milljónir eftir baráttu og bréfaskriftir táknmálstalandi fólks til margra vikna. Á meðan fékk þessi hópur ekki túlkun í daglegu lífi, á meðan það var. Þetta er jákvætt og í samræmi við lögin um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, en við eigum að tryggja þeim sem eiga íslenskt táknmál að móðurmáli túlkun með varanlegum hætti. Annað er til skammar.