144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:08]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að fagna þessari breytingu og þakka hv. fjárlaganefnd fyrir hana. Um leið og ég fagna henni vil ég hvetja okkur öll og fjárveitingavaldið til að sjá til þess að þetta gerist ekki aftur, að notendur þessarar þjónustu þurfi ekki að lifa í óvissu á hverju einasta ári um það hvort nægir peningar séu í þessum sjóði eða ekki. Í 13. gr. laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls segir, með leyfi forseta:

„Íslenskt táknmál er jafnrétthátt íslensku sem tjáningarform í samskiptum manna í milli og er óheimilt að mismuna mönnum eftir því hvort málið þeir nota.“

Það segir sig sjálft að ef við fullnægjum ekki þessum þörfum og förum ekki eftir þessu erum við að brjóta lög og mannréttindi og það viljum við ekki, er það?