144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:09]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að ég styð heils hugar þessa hækkun á framlagi til túlkaþjónustu fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta. Hún er forsenda þess að fólk sem er heyrnarlaust eða heyrnarskert geti tekið þátt í samfélaginu. Auðvitað er skylda okkar að tryggja að það geti það alltaf og á ekki að þurfa fjáraukalög til þess. Auðvitað á þetta að vera tryggt með varanlegum hætti í fjárlögum.

Forsenda þess að fólk sem er heyrnarlaust eða heyrnarskert geti verið virkir samfélagsþegnar eða borgarar í þessu samfélagi er að það hafi aðgang að túlkaþjónustu til að geta tekið þátt í daglegu lífi. Þannig samfélagsþegnar eru okkur mikils virði. Þeir skila miklu til samfélagsins en eru ekki neyddir til að vera óvirkir. Þess vegna eigum við auðvitað að tryggja að túlkaþjónusta sé alltaf í boði og hún sé örugg fyrir alla sem á henni þurfa að halda.