144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér er gripið til þess ráðs, ef ég skil rétt, að lækka fjárveitingar til Vegagerðarinnar til nýframkvæmda í vegamálum og færa þá fjármuni yfir í að bera uppi hallann af vetrarþjónustu, aðallega snjómokstri, sem sagt sokkinn kostnað sem þegar er til fallinn, en niðurstaðan er að framkvæmdageta Vegagerðarinnar skerðist enn með þessum ráðstöfunum. Ég sé ekki fyrir mér enn þá, nema þá að stórtíðindi verði í afgreiðslu fjárlaganna sjálfra, að Vegagerðin endurheimti á nýjan leik þessar fjárheimildir til framkvæmda. Allir vita hvernig ástandið er, það er orðið mjög alvarlegt. Ég tel að þessi meðferð á vegamálunum öllsömul sé mjög ámælisverð. Ríkisstjórnin gaf í skyn að betri tímar væru í vændum þegar samgönguáætlun var lögð fram í fyrra, en hún var gerð að engu með fjárlagafrumvarpinu og enn frekar með þessum ráðstöfunum sem allar eru í sömu átt, að skerða enn (Forseti hringir.) þegar allt of litla getu Vegagerðarinnar til að ráðast í nýframkvæmdir.