144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er verið að taka fé úr nýframkvæmdum hjá Vegagerðinni í viðhald/snjómokstur; kostnað sem er kominn á og menn horfast í augu við. Mér finnst grátlegt að horfa upp á það að enn á ný sé verið að ráðast á það framkvæmdafé sem Vegagerðin hefur úr að spila. Ekki er það mikið fyrir og í næstu fjárlögum er ekki einu sinni staðið við samgönguáætlun núverandi ríkisstjórnar. Það er skorið niður um hátt í 3 milljarða í framlögum til samgöngumála.

Það er til skammar fyrir hæstv. ríkisstjórn hvernig hún kemur að uppbyggingu samgangna í landinu. Menn eru að reyna að bjarga sér fyrir horn með því að taka fé úr nýframkvæmdum og setja í þennan kostnað sem þarf vissulega að mæta varðandi snjómokstur en menn eiga auðvitað bara að áætla meira í þann lið við fjárlög hvers árs. Það er mikið áhyggjuefni hvernig samgöngumál eru að þróast í þessu landi.