144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:29]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að okkur greinir á í þessu máli, meiri hluta og minni hluta á þingi. Hér er sífellt talað um almennar aðgerðir en þriðjungur þjóðarinnar getur tæplega talist allur almenningur, að hér sé verið að aðstoða heimilin almennt.

Þetta helst heldur ekki í hendur við þann aga í ríkisfjármálum sem sjálfstæðismenn boða mjög ítrekað og eins og hér var sagt áðan fylgir þessu aukakostnaður, m.a. vegna Íbúðalánasjóðs sem sjálfstæðismenn tala ekki mikið um þessa dagana. Svo byggist þetta allt saman fyrst og fremst á innkomu Seðlabankans, þ.e. breytingu á eigin fé Seðlabankans. Hér er búið að fara ágætlega yfir hvernig möndlað er með það til að búa til betri afkomu og tryggja að þessum aðgerðum sé flýtt.

Virðulegi forseti. Ég mun segja nei við þessari aðgerð.