144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

almannatryggingar.

322. mál
[17:03]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef lengi haft áhuga á og fylgst með málefnum fanga. Þess vegna sperrti ég mín eyru þegar hæstv. ráðherra fjallaði lítillega, í sinni löngu og ágætu ræðu, um málefni fanga. Sérstaklega er það einn hópur fanga sem ég tel að hafi oft verið í mjög þröngri stöðu. Það eru þeir ógæfusömu landar okkar sem hafa lent í því að misstíga sig það harkalega gagnvart lögum erlendra ríkja að þeir hafa verið settir í dýflissu þar og hírst þar oft við ákaflega þröngan kost.

Í sumum tilvikum hefur tekist, með aðstoð utanríkisþjónustunnar og ræðismanna í viðkomandi löndum, að ná þeim út, þó þannig að þeir hafa haft skert ferðafrelsi og mega ekki fara úr landinu. Í nokkrum tilvikum hefur það gerst að þeir hafa heldur ekki mátt sjá sér farborða með því að sinna almennri atvinnustarfsemi. Það er mjög þungt fyrir þá og hefur orðið til þess að stundum hafa þeir aftur, af illri nauðsyn, hrapað til baka hinn breiða veg sem liggur því miður jafnan til glötunar.

En ber að skilja það sem hæstv. ráðherra sagði hér í sinni ágætu ræðu áðan þannig að þessir menn — sem hafa lent á þessu bili að þeir eru dæmdir, þeir sleppa úr fangelsi en fá ekki að fara úr landinu — eigi kost á aðstoð? Um þetta hef ég áður flutt fyrirspurnir hér á Alþingi og komst að raun um að það lá ekki algerlega ljóst fyrir hver ætti þá að bera á því hina fjárhagslegu ábyrgð.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún getur, í einni skjótri svipan, svarað spurningum af þessu tagi. Spurningin er kannski of sérfræðileg fyrir hana og ég skil það þá vel en mér bara fannst hæstv. ráðherra í reynd vera að lýsa breytingum á skipan mála sem mér fundust þekja þetta.