144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

almannatryggingar.

322. mál
[17:09]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum hér að sjálfsögðu að tala um fólk sem á réttindi á grundvelli almannatryggingalaganna. En gæti verið að hv. þingmaður hafi hlustað eftir því í máli mínu þegar ég var að tala um að þeir sem væru á flótta undan réttvísinni ættu ekki rétt á að fá greiðslur á þeim tíma?

Ég get alveg tekið undir þetta, þetta er mál sem utanríkisþjónustan finnur fyrir. Við fáum líka ábendingar og ósk eftir hjálp í velferðarráðuneytinu þegar kemur að stöðu fólks sem farið hefur í fangelsi erlendis og síðan verið í erfiðri stöðu í framhaldinu, eftir að það hefur losnað úr fangelsi. Ég held að málið snúi kannski frekar að því hvort sérstakur sjóður eigi að vera til staðar hjá utanríkisráðuneytinu til að geta brugðist við nákvæmlega þessari stöðu og alla vega tryggt að fólk geti komið heim til Íslands.