144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

almannatryggingar.

322. mál
[17:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að nefna aðeins 16. gr. frumvarpsins en hún veldur breytingum á 56. gr. laganna nr. 100/2007, en þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Nú afplánar lífeyrisþegi refsingu í fangelsi, sætir gæsluvarðhaldi eða er á annan hátt úrskurðaður til dvalar á stofnun og skulu þá falla niður allar bætur til hans, sbr. 53. gr. Sama á við þegar lífeyrisþegi kemur sér viljandi undan því að afplána refsingu. Þegar bætur hafa verið felldar niður er heimilt að greiða ráðstöfunarfé í samræmi við 8. mgr. 48. gr. Verði lífeyrisþegi ekki dæmdur til fangelsisvistar í kjölfar gæsluvarðhalds skulu bætur til hans greiddar fyrir það tímabil þegar gæsluvarðhaldsvist stóð yfir.“

Þetta stingur pínulítið í augun, virðulegi forseti, vegna þess að 56. gr. laga nr. 100/2007 er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ef bótaþegi er dæmdur til fangelsisvistar eða á annan hátt úrskurðaður til dvalar á einhverri stofnun skulu falla niður allar bætur til hans eftir fjögurra mánaða samfellda fangelsisvist eða dvöl. Þegar bætur hafa verið felldar niður er heimilt að greiða fanga vasapeninga í samræmi við 8. mgr. 48. gr.“

Það sem stingur aðallega í augun er í sjálfu sér ekki það að hér sé bætt við að þetta gildi ef maður er viljandi að forðast afplánun, heldur það að í nýju útgáfunni samkvæmt frumvarpinu er ekkert minnst á þetta fjögurra mánaða tímabil. Mér hefur fundist um fangamál almennt að fólki þyki frekar auðvelt að svipta fanga á einhvern hátt réttindum eða fríðindum eða einhvers konar aðstöðu sem þeir telja sér til bóta. Ég hvái því eftir þessu og vænti þess fastlega að yfir þetta verði farið í hv. velferðarnefnd.

Ég velti fyrir mér hvort það væri við hæfi að hv. allsherjar- og menntamálanefnd tæki þetta atriði sérstaklega fyrir vegna þess að þetta varðar fanga og réttindi þeirra og þau málefni heyra undir hv. allsherjar- og menntamálanefnd. En ég geri þó fastlega ráð fyrir að hv. velferðarnefnd sækist eftir slíku áliti ef það þykir við hæfi. En ég óttast svolítið að hér hafi verið stofnað til þessarar breytingar með kannski ekki skeytingarleysi en ef til vill tillitsleysi við fanga, sem er mjög algengt í þjóðfélaginu almennt, ekkert síður hér á Alþingi. Þetta eru oft manneskjur sem fólk á auðvelt með að, ég segi ekki fyrirlíta en það ber ekki gríðarlega mikla virðingu fyrir þeim, og þá er auðvelt að gleyma réttindum og auðvelt að réttlæta í eigin huga að viðkomandi eigi skilið eitthvað minna en hann hefur kannski rétt á.

Mér fannst rétt að nefna þetta á þessu stigi þannig að það komi strax til umræðu vegna þess að þetta er hópur samfélagsins hvort sem okkur líkar betur eða verr. Fangar eru hluti af samfélaginu hvort sem okkur líkar betur eða verr, sem oft hefur engan málsvara. Þá er sérstaklega mikilvægt að við förum varlega. Það má vel vera að mjög lögmætar ástæður séu fyrir þessu öllu saman en þá finnst mér mikilvægt að við tökum allar slíkar ákvarðanir með sviptingar á réttindum almennt mjög alvarlega, en alveg sérstaklega þegar kemur að hópum í samfélaginu sem eru ekki vel liðnir eða eiga á einhvern annan hátt undir högg að sækja.

Það var ekki fleira sem ég vildi nefna í ræðu minni að þessu sinni, virðulegi forseti.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.