144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

almannatryggingar.

322. mál
[17:36]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ábendingar frá hv. þingmanni. Eins og ég tók fram í framsöguræðu minni er markmið frumvarpsins einmitt að skýra lögin og gera þau auðveldari aflestrar og að fólk eigi vonandi auðveldara með að skilja hver réttindi þess eru.

Í þessu ákvæði sérstaklega er áherslan á það að þessi hópur sé ekki betur settur en aðrir þeir sem fara í fangelsi, og við séum heldur ekki að gera meira gagnvart föngum, þeim sem þarf að vista á stofnun eða eru í gæsluvarðhaldi en við gerum gagnvart öðrum lífeyrisþegum sem fara inn á annars konar stofnanir eins og hjúkrunarheimili.

Ég vil líka ítreka það sem ég sagði í andsvari að mjög mikilvægt er að lesa frumvarpið eins og það verður ef það yrði að lögum, sjá þannig heildarmyndina á þeim lagabreytingum sem verið er að huga að. Vegna þess að þar er hugsanlega verið að breyta einu eða tveimur orðum í einni málsgrein, eða önnur málsgrein heldur sér. Það er því mjög mikilvægt að fara yfir heildarbreytinguna sem verður og fólk átti sig á því hvað það er í rauninni sem er líka óbreytt, því að það hefur komið upp misskilningur um það að menn halda að þingið sé að breyta einhverju, sem er raunar óbreytt, bara af því að við færum til í lagagrein eða með öðrum hætti.

Þetta er stórt mál. Þarna eru ákvæði sem að mínu mati liggur á að klára en hins vegar hvað varðar heildarfrumvarpið þá held ég að mjög mikilvægt sé að nefndin meti hversu hratt hægt er að vinna þetta mál, því að litlar breytingar, eins og við höfum svo sem rætt hvað þetta varðar, eitt eða tvö orð sem fara, geta haft mikil áhrif á líf einstaklinga.