144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

um fundarstjórn.

[17:43]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að forseti hefur tekið þessi mál alvarlega og rætt um þau við formenn þingflokkanna. Mér var vissulega brugðið þegar ég sá að það ætti að vera fundur í atvinnuveganefnd til að drífa þetta mál formlega í gegn sem fyrst. Það er vissulega rétt að ekki var lögð fram skrifleg tillaga um þetta efni á fundi atvinnuveganefndar, enda var málið ekki á dagskrá, en það var reifað þannig að fullur vilji væri hjá meiri hluta nefndarinnar til að knýja þetta mál fram með miklum hraða og ofsa.

Ég vil upplýsa það að núna erum við nefndarmenn í atvinnuveganefnd búin að fá það minnisblað sem lengi hefur verið beðið eftir í nefndinni út af þessu máli. Það reyndist ekki vera lögfræðiálit, eins og formaður atvinnuveganefndar hafði talað um í nefndinni, heldur er þetta minnisblað frá skrifstofustjóra atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.