144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

Haf- og vatnarannsóknir.

391. mál
[17:57]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda andsvarið sem er áhugavert. Mitt mat er það að öflug stofnun sem sannarlega verður með höfuðstöðvar hér á höfuðborgarsvæðinu — hún verður af stærðargráðunni 180–190 manns ef ég man rétt — sé burðugri til þess að reka öflugri starfsstöðvar úti á landi eins og stofnanirnar gera reyndar í dag.

Tilfellið er að stofnanirnar eru margar hverjar ekki nægilega burðugar þar sem aðallega er um að ræða einn starfsmann; stundum tvo, í einhverjum tilvikum þrjá, fjóra. Í mörgum tilvikum er nauðsynlegt að það séu þrír, fjórir eða fimm starfsmenn á slíkum stöðvum til þess að þær séu nægilega öflugar.

Ég held að tilefni sé til að skoða í framhaldinu hvort samlegðaráhrif starfsstöðvanna geti nýst. Nú er það vissulega þannig að þær eru á nokkuð ólíkum stöðum í dag en það má velta því fyrir sér hvort ekki sé skynsamlegt að fara yfir það að nýju og sjá fyrir sér hvernig starfsstöðvarnar á landsbyggðinni gætu orðið öflugastar til lengri tíma. En tækifæri til þess að efla starfsemi í útibúum hringinn í kringum landið hljóta að verða öflugri hjá stærri stofnun en minni.